Milli 1910 og 1920 voru miklar umræður á Akureyri meðal almennings og í bæjarstjórn um virkjun til raforkuframleiðslu til ljósa og hitunar í bænum. Árið 1919 var tímamótaár í sögu Akureyrar, fjölgað var í 11 menn í bæjarstjórn og hún kosin í einu lagi. Athyglisvert er að eftir kosningarnar skipuðu allir helstu áhrifamenn í bæjarstjórn rafveitunefndina og fór nú að draga til tíðinda í rafveitumálum. Öflin sem þó fljótast hrinda rafveitumáli bæjarins áfram eru almennur áhugi, almenn samtök og almenn þátttaka.
Það mun því hafa verið í þökk mikils meirihluta bæjarbúa þegar rafveitunefndin ákvað að hefjast handa og reisa 300 hestafla virkjun í Glerá við Glerárfossinn. Með þessum samþykktum rafveitunefndar, sem síðar voru viðstöðulaust og samhljóða staðfestar í bæjarstjórn, er talið að ákveðið hafi verið að reisa rafstöð handa Akureyringum. Undir fundargerð rafveitunefndar 19. desember 1920 skrifaði Jón Sveinsson bæjarstjóri, Sigurður Bjarnason kaupmaður, Erlingur Friðjónsson kaupfélagsstjóri og Ragnar Ólafsson kaupmaður.
Þá varð að fá verkfræðing til þess að hafa stjórn framkvæmda með höndum og til þess réðst Svíinn Olof Sandal, sem brátt gat sér hið besta orð fyrir dugnað og kunnáttu.
Glerárstífla var síðan byggð árið 1921 og virkjunin árið 1922. Þann 1. september var Knut Ottersted ráðinn rafveitustjóri og laugardaginn 30. september 1922 var rafstöðin opnuð og straumi hleypt á Akureyri. Virkjunin var aflögð og gefin Iðnskólanum á Akureyri 1963. Rafstöðin varð aldrei það kennslutæki sem ætlunin hafði verið og grotnaði niður. Loks ákvað bæjarstjórn Akureyrar að láta rífa rafstöðina árið 1978. Glerárstífla var hins vegar látin standa og var endurbyggð af Rafveitu Akureyrar árið 1996.
Endurvirkjun Glerár 2004 og 2005
Í desember 2003 fól Norðurorka hf. Verkfræðistofu Norðurlands ehf. að vinna að og kanna kostnað og hagkvæmni þess að endurreisa Glerárvirkjun í tilefni af 100 ára afmæli rafvæðingar á Íslandi.
VN skilaði frumathugun í febrúar 2004. Helstu niðurstöður voru þær að tæknilega væri ekkert því til fyrirstöðu að endurreisa virkjunina og að orkuframleiðsla nýrrar virkjunar gæti staðið undir lágmarksvirkjunarkostnaði. Var þá gert ráð fyrir að nota stífluna óbreytta og að hægt yrði að nota grunn og sográs gamla stöðvarhússins.
Stjórn Norðurorku ákvað í ljósi framangreindrar frumathugunar að ráðast í endurbyggingu Glerárvirkjunar og fékk til verksins arkitektastofuna Form ehf., Verkfræðistofu Norðurlands ehf. og Verkfræðistofuna Raftákn ehf. Aðalhönnuður stöðvarhússins er Ágúst Hafsteinsson arkitekt.
Við hönnun stöðvarhússins var lögð rík áhersla á að varðveita megindrætti eldra húss, en opna það, gera innviði þess sýnilega og yfirbragð þess léttara en áður var. Með því er leitast við að ná markmiðum Norðurorku með endurbyggingu virkjunarinnar, sem auk þess að framleiða raforku eru, að sýna á aðgengilegan hátt hvernig raforka er unnin úr vatnsorku og um leið að nota stöðvarhúsið sem kennslustofu. Í stöðvarhúsinu er auk nýrrar vélasamstæðu komið fyrir öðrum af tveimur Francishverflum upphaflegu virkjunarinnar.
Stöðvarhúsið er á einni hæð og reist á grunni eldra húss. Heildarstærð stöðvarhússins er 80 m². Útveggir eru steinsteyptir og einangraðir að innan og múraðir. Valmaþak er borið upp af timburkraftsperrum og klætt með þakstáli. Innan við steyptar súlur á suður og austurhlið ásamt hluta af vesturhlið er glerveggur. Gólfflísar eru svartar og hvítar, áþekkar þeim sem upphafleg voru notaðar.
Breyta þurfti aðalskipulagi og gera deiliskipulag fyrir Glerárgil vegna framkvæmdanna og voru skipulagstillögur auglýstar í lok júlí. Breytt aðalskipulag var samþykkt í bæjarstjórn 21. september og deiliskipulag 16. nóvember 2004.
Tekið var tilboði frá Wasserkraft Volk AG í Þýskalandi í vélbúnað og tilheyrandi rafbúnað (umboð Ískraft hf.). Hverfillinn er 250 snún/mín. þverstreymishverfill (crossflow), tvískiptur, tengdur 1000 snúninga rafli með gír. Bygging stöðvarhússins var boðin út í lok september og var samið við Trétak ehf. á Dalvík um verkið.
Þrýstipípa virkjunarinnar er úr stáli, 85 metra löng, 1,2 metrar í þvermál. Við stífluna er greinistykki með útrás er kemur í stað botnrásar stíflunar.
Smíði þrýstipípunnar var boðin út í október og var samið um verkið við Véla- og Stálsmiðjuna ehf. á Akureyri.
Þann 10. desember árið 2004 lagði iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir hornstein að virkjuninni. Framkvæmdir gengu samkvæmt áætlun og var virkjunin formlega tekin í notkun þann 27. ágúst 2005.
Helstu kennitölur eru
- Virkjuð fallhæð er; 15 metrar
- Virkjað rennsli; 2,6 m3/s
- Lágmarksrennsli; 0,7 m3
- Uppsett afl; 290 kW
- Áætluð orkuframleiðsla um; 1,8 Gwst/ári
- Lengd þrýstipípu; 85 m
- Þvermál þrýstipípu; 1,2 m
- Vatnsmiðlun; óveruleg
