Kostnaður

Rafbíll er tiltölulega nýleg vara á markaðnum í dag. Það er ekki langt síðan að eingöngu voru í boði bensín og dísel bílar. Ef maður ætlaði að minnka rekstrarkostnað, varð maður að velja þann bíl sem eyðir hvað minnstu eldsneyti á hverja 100 km. Í dag er sagan önnur og um margt að velja, sem bæði er ódýrara í rekstri og umhverfisvænna.

Rafbílar er nútímavæðing sem er komin til að vera. Rafbílar hafa það yfir eldsneytisbíla að losa ekkert koltvíoxið út í umhverfið þegar ekið er á þeim, auk þess munar ótrúlega miklu í rekstrarkostnaði. Orkueiningarnar eldsneyti og raforka eru þó svipaðar í verði, en munurinn liggur í orkunýtni bílanna, þ.e. rafbíll er mun sparneytnari en eldsneytisbíllinn.

Tökum nú dæmi um rafbíl annars vegar og bensínbíl hins vegar. Rafbíll eyðir í kringum 18 kWst á hverja 100 km og bensínbíll í kringum 7 l. Erfitt er þó að bera þetta saman þar sem þetta eru ekki sambærilegar orkueiningar. 18 kWst samsvara um 1,7 l af bensíni og 7 l af bensíni samsvara um 76 kWst. Sjáum því að rafbíllinn er mun sparneytnari og því betri kostur. Þegar tekið er saman hver kostnaðurinn er að aka 100 km er mismunurinn þá um 720 kr í heildina.

Einnig er mikill munur í viðhaldskostnaði sem hér verður þó ekki farið ítarlega í. Þó má segja að rafbílar hafa mun einfaldari vél og færri möguleika á bilun. Viðhaldskostnaður þeirra er því minni til muna.

Rafbílar eru því mjög góður kostur sem vert er að hafa í huga þegar farið er að huga að bílakaupum. Einnig má sjá á vef Orkuseturs rafbílareikni, sem vert er að skoða.

Svæði

Skrifstofa fallorku

Opið alla virka daga frá 8-16

Lokað um helgar.