Þróunarverkefni

Fallorka fékk á árinu 2017 formlegt rannsóknarleyfi frá Orkustofnun vegna Djúpadalsvirkjunar 3. Hún er fyrirhuguð á Hvassafellsdal, um 10 km innan við lón Djúpadalsvirkjunar 2.

Fyrstu hugmyndir um Djúpadalsvirkjun 3 gera ráð fyrir fallhæð 116 til 166 metrar, lengd pípu 1850 til 3200 metrar og virkjað rennsli 2,2 m3/sek. Uppsett afl væri þá á bilinu 2,1 til 3,0 MW ef miðað væri við að ná um 70% nýtingu á ársgrundvelli. Einnig kæmi til greina að hafa uppsett afl allt að 5,0 MW og miðað þá við að framleiða sem mesta raforku á daginn, þegar þörfin er mest, en keyra virkjunina hægar yfir nóttina og safna þá vatni í lónið. Landfræðilegar aðstæður gefa möguleika á nokkuð stóru miðlunarlóni fyrir Djúpadalsvirkjun 3 sem myndi einnig gagnast hinum tveimur virkjununum sem eru neðar í ánni, umtalsvert.

Fallorka fékk einnig á árinu 2017 formlegt rannsóknarleyfi frá Orkustofnun vegna mögulegra rennslisvirkjana í Hagaá og Hrauná, sem falla í Djúpadalsá neðan við fyrirhugaða Djúpadalsvirkjun 3. Þær virkjanir gætu hvor um sig verið á bilinu 0,5 til 0,8 MW. Þessar virkjanir hafa vinnuheitið „Kambfellsvirkjanir“.

Jarðstrengur sem flytur raforku frá Djúpadalsvirkjunum 1 og 2 til Akureyrar er fullnýttur og þyrfti því að leggja nýjan streng til Akureyrar ef reistar verða fleiri virkjanir í Djúpadal.

Haustið 2017 lét Fallorka laga vegarslóða sem liggur að rannsóknarsvæðinu og hóf rennslismælingar í öllum þremur ánum. Sumarið 2018 var grafið og borað við fyrirhugað stíflustæði Djúpadalsvirkjunar 3 til að kanna jarðlög. Sumarið 2019 var rennslismælingum haldið áfram.

 

Svæði

Skrifstofa fallorku

Opið alla virka daga frá 8-16

Lokað um helgar.